Í dag var fyrsti "landadagurinn" við byrjuðum á Íslandi, sungum íslensk lög í söngstundinni, horfðum á þátt með tröllastelpunni Bólu og systurnar Tanja Lind og Klara Bríet voru klæddar upp í upphluti sem Sigga deildarstjóri á Grænu á í fórum sínum saumaða eftir ömmu sína. Í hádeginu var að sjálfsögðu boðið upp á kraftmikla íslenska kjötsúpu.

Að öðru leyti hefur vikan verið fín þrátt fyrir rysjótt veður, aðlögun yngstu barnanna gengur vel, eldri börnin eru byrjuð í hópastarfi og flakkarar farnir að fara í flakkaraferðir. Ferð vikunnar var á Listasafn ASÍ þar sem Sigrún Eldjárn myndlistarkona og rithöfundur sýnir verk sín.

Í vikunni tókum við líka upp hluta af kartöflunum og tíndum slatta af rifsberjum og suðum fína sultu.

 

Njótið helgarinnar!

Í gær var alþjóðadagur læsis, við héldum upp á daginn með sögustund í morgun þegar Þórdís sagði okkur öllum söguna um geiturnar þrjár á sinn einstaka hátt með slæðum og leikmunum. Börnin voru einnig hvött til að koma með uppáhaldsbókina sína og einhverjar hafa verið lesnar í dag.

 

Nú ættu allir deildarstjórar að vera búnir að senda starfsáætlun og skóladagatal til foreldra í tölvupósti. Ef sá póstur hefur ekki borist ykkur biðjum við ykkur að hafa samband við deildarstjórann. Á næstu dögum verður svo skóladagatalið og starfsáætlunin birt á heimasíðunni. Einnig er verið að uppfæra upplýsingar um starfsfólk og setja inn myndir. Endilega fylgist með á næstu vikum.


Næsti skipulagsdagur er föstudaginn 27. september og verður hann að hluta til með leikskólunum í hverfinu, Laugasól og Langholti. Þann dag er leikskólinn lokaður allan daginn.

Enn eitt skólaár skollið á... sumarið að líða og nýjir tímar taka við. Í morgun urðu heilmiklar breytingar, mörg börn komu árinu eldri í skólann í morgun og fluttu á nýja deild, önnur komu glæný með mömmu og pabba og þurfa nokkra daga til að átta sig á aðstæðum. Við áttum fínan skipulagsdag í gær, lögðum línur fyrir komandi vetur og bíðum spenntar eftir allskonar spennandi verkefnum sem við ætlum að vinna með börnunum. Við fyrsta tækifæri setjum við starfsáætlun og skóladagatal hingað inn en foreldrar fá hvorttveggja sent í tölvupósti á næstu dögum. Við ætlum líka að vera duglegri að setja inn fréttir og myndir hér á heimsíðuna. Matseðill fyrir september er kominn inn og á næstu dögum setjum við inn myndir af nýju starfsfólki. Smávægilegar breytingar verða á starfsmannahaldinu, Katrín Rósa er byrjuð á Bláudeildinni, Oddný og Rakel fara af Grænu yfir á Rauðu og Særún fer líka inn á Rauðu. Guladeildin verður óbreytt en á Grænudeild eru tveir nýjir starfsmenn Rasa og Lísa. Á Svörtudeild er Mike hættur og Sara tekin við og Inga er líka komin inn á Svörtudeild. Hvítadeild er með óbreyttan starfsmannahóp.

 

Hlökkum til að vinna með ykkur í vetur!

Við minnum á að fimmtudaginn 22. ágúst er leikskólinn lokaður vegna skipulagsdags.