18. desember

Þá er nú heldur betur farið að styttast í jólin sjálf. Aðventan hefur liðið hratt með alls konar uppákomum innan og utan leikskólans. Veðrið hefur verið fjölbreytt og við sem elstar erum í bransanum munum ekki eftir að leikskólar hafi lokað vegna veðurs áður. Síðustu daga hefur garðurinn okkar verið algjörlega ófær vegna hálku svo lítið er um útivist. Uppákomur eins og leiksýning, jólaball, kaffihúsadagur og jólamatur hafa sett svip sinn á dagana og allt gengið vel. Bernd brúðuleikhúsmaður kom með sýninguna Pönnukakan hennar Grýlu og allir á sýningunni skemmtu sér vel, bæði börn og starfsfólk. Giljagaur og Stekkjastaur gáfu sér tíma til að líta við á ballinu í gær og við vorum svo heppin að fá píanóleikara í heimsókn bæði á jólaballið og í eina söngstund hér um daginn.

Nú tekur við rólegri tími, öll skipulögð dagskrá er búin og aðaláhersla lögð á frjálsan leik, útiveru ef veður leyfir og samveru.

Við óskum ykkur allra gleðilegra jóla og vonum að þið njótið hátíðarinnar vel. jlamynd

Ágætu foreldrar!
Vegna slæmrar veðurspá viljum við biðja ykkur um að sækja börnin í leikskólann fyrir kl. 16.00 í dag mánudaginn 7. desember. Þetta er samkvæmt sameiginlegri ákvörðun Skóla- og frístundarsviðs og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Sjá meðfylgjandi tilkynningu.
Með kveðju,
Ingveldur H. Björnsdóttir, leikskólastjóri

Foreldrar/forráðamenn sæki börnin sín fyrir kl. 16:00
Vegna óveðurs sem er spáð á höfuðborgarsvæðinu seinna í dag hefur verið lýst yfir óvissistigi og verklag um röskun á skólastarfi verið virkjað.
Foreldrar/forráðamenn eru beðnir um að tryggja að börn verði sótt fyrir klukkan 16:00, þannig að þau séu trygg heima þegar veðrið skellur á.
Jafnframt hafa skólar verið beðnir um að tryggja að börn yfirgefi ekki skólana nema í fylgd með fullorðnum, enda eru þau örugg í skólanum.

Slökkviliðið þakkar því hversu vel gekk í síðasta óveðri sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið þann 1. desember sl. og hversu vel foreldrar og forráðamenn fóru eftir ráðleggingum og héldu sig heima við.
Nánari upplýsingar má finna á shs.is og á Facebook-síðu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

20. nóvember

Hér hefur ekkert verið skrifað lengi, samt er alltaf nóg um að vera og alls konar fréttir af okkur. kannski eru þær helstar að allar deildir hafa nú stofnað lokaðan hóp á fésbókinni og þar koma reglulega inn myndir og fréttir af starfi hverrar deildar.

5. bekkur Laugarnesskóla kom hér í gær í heimsókn, flest allt fyrrverandi nemendur sem gaman var að hitta og okkur sýndist þau hafa gaman af. Þau lásu frumsamin ævintýri fyrir leikskólabörnin og svo sungu allir saman. Skólabörnin fengu svo að leika sér og skoða sig um og rifja upp vonandi góða tíma hér á Hofi.

Í dag er skipulagsdagur, börnin fá langt helgarfrí en við starfsfólkið erum að vinna í verkefninu Allir vinir, kennarar með hvern árgang hittast og skipuleggja starfið, haldnir eru deildarfundir og tíminn framundan skipulagður.

Njótið helgarinnar!

18. sept


Kominn miður september... og hér er allt á fullu. Öll börn eru nú byrjuð og vetrarstarfið að komast í gang. Í september eru auðvitað líka alls kyns uppákomur, 8. september er alþjóðlegur dagur læsis og þemað að þessu sinni var að segja sögur, í því er Þórdís okkar snillingur og hún hafði sögustund fyrir öll börnin frammi á hreyfisvæði. Þegar sögustundinni lauk fengu börnin að smakka nokkrar tegundir af salati og grænmeti úr garðinum okkar.

16. september er dagur íslenskrar náttúru. Við létum nú duga að fara út í garð í góða veðrinu en kveiktum upp í eldstæðinu okkar og drukkum heitt súkkulaði og borðuðum smurt brauð með. Það var svo ótrúlega gott veður þennan dag að við vorum úti nánasta allan daginn.

Elstu börnin eru komin á heilmikið flakk, búin að fara í Þjóðleikhúsið og fara eftir helgi á Sinfóníutónleika. Þau eru einnig að fara á námskeið í Húsdýragarðinum og í kynningu út í Grasagarð... það er sko nóg um að vera.


Næst elstu börnin sem eru fædd 2011 eru líka að fara í Húsdýragarðinn í nokkrum hópum.

Heimsóknir í Ármann eru byrjaðar og hver deild auglýsir þegar að þeim kemur.

 

Endilega fylgist með tölvupóstum frá deildarstjórum því það er alltaf eitthvað um að vera hjá okkur

Njótið helgarinnar!